Samkeppnislög: Bann við viðskiptum

Uppruni samkeppnislaga

Samkvæmt spámönnum félagshyggjunnar kemur frjáls og óheftur markaður óumflýjanlega til með að enda í stofnun eins risafyrirtækis sem síðan örfá fúlmenni nota til að stjórna öllum þáttum samfélagsins með gráðugri járnklónni meðan almenningur sveltur í hel. Þetta er vissulega ófögur tilhugsun, en á frjálsum markaði engu líklegri til að verða að veruleika en kaffisýnir spákerlinga í Vesturbænum eða heimsendaskyggni sjáenda.

En þó, til að berjast við þessa grýlu hafa leppalúðar og donkíkótar stjórnmálanna séð það sem nauðsyn í gegnum tíðina að setja lög og reglur, svokölluð samkeppnislög, sem eiga að koma í veg fyrir innrás umræddra vindmyllna. Þau lög eiga samkvæmt kenningunni að stuðla að samkeppni og vernda hana.


Blákaldur raunveruleikinn

Sú er hin meinta tilætlun, en eins og með allt sem byggt er á tómri ímyndun verður reynslan önnur. Samkeppnislög eru gífurlegt óréttlæti. Eins og við munum sjá eru samkeppnislög oft skjöldur gegn samkeppni handa ósamkeppnishæfum fyrirtækjum, sem kemur sér best fyrir þau sem mönnuð eru letingjum og fúlmennum.

Hvað þýðir það raunverulega þegar menn segjast vilja vernda samkeppni sem slíka? Það þýðir að keppa keppninnar vegna, ekki að keppa til að vinna. Þeir sem viðskiptavinirnir verðlauna hvað mest eru höggnir niður, og þeim sem eru að tapa í keppninni er hjálpað á fætur á kostnað hinna. Þú mátt geta þrisvar hver á endanum greiðir þann kostnað í formi hærra verðlags. Hið raunverulega verksvið samkeppnislaga er því að refsa fyrirtækjum og viðskiptavinum þeirra fyrir að vegna vel, og hygla þeim sem illa gengur. Að gera betur en aðrir við viðskiptavini sína er orðið refsivert athæfi og þeir sem ekkert nýtt eða betra hafa að bjóða þurfa engar áhyggjur að hafa. Þeim verður reddað fyrir horn af ríkinu hvort eð er, í nafni þess að halda uppi samkeppni.

Hérna liggur hjarta jafnaðarstefnunnar. Jafnaðarmenn láta ekki staðar numið við að aðstoða bágstadda á kostnað hinna efnameiri. Í sál jafnaðarmannsins liggur óbeit á því að sumir séu öðruvísi en aðrir og gangi því betur, hvort sem það er í viðskiptum, íþróttum, námi eða öðru. Slík einstaklingsbundin velmegun stangast á við "félagslegt réttlæti", sem við dauðlegir menn í daglegu tali köllum öfund.

Á hinni hlið þess sama tenings hinnar meintu samkeppnisskyldu er bann við samráði og samruna. Það er að sama skapi ætlað til að halda uppi samkeppni samkeppninnar vegna. En það hlýtur að vera deginum ljósara að þannig samkeppni er bara plat, og lög sem þessi tortíma samkeppni frekar en að halda henni við. Það að við þykjumst að það séu forsendur fyrir samkeppni, og þykjumst að hún eigi sér stað, þýðir alls ekki að svo sé.


Reynslan hingað til

Nú er komin þónokkur reynsla af bæði tímum þegar samkeppnislög eru við lýði og þegar þau eru það ekki. Það ætti því að vera talsvert ljóst hvort þau hafi haft tilætluð áhrif og hvort, í baksýn, hafi verið nokkur þörf fyrir þau á annað borð.

Þar sem við sjáum heilbrigða samkeppni hafa samkeppnislög yfirleitt ekki komið við sögu. Þvert á móti hafa lögin oft öfug áhrif og styrkja stöðu þeirra sem minnst nenna því að leggja á sig nýbreytni. Það er einnig letjandi að mega búast við refsingum ef manni gengur of vel. Þar sem lögin hafa verið hvað mest misnotuð, t.d. í sölu trygginga og eldsneytis sjáum við lítið um samkeppni. Og þeim mun minni samkeppni sem við sjáum fáum við fleiri reglugerðir. Róðurinn verður þá þeim mun þyngri í reglugerðafrumskóginum og við sjáum enn minni samkeppni en áður. Því má í þeim geirum viðskipta þar sem lögin eru hvað mest misnotuð oftast nær finna fyrirtæki sem minna á steinsofandi bergrisa. Sofandi vegna þess að, þökk sé samkeppnislögum, eru þeir blessunarlega verndaðir gegn samkeppni. Ástandið minnir þá einna helst á unglingavinnuna, þar sem aðalatriðið er ekki að vinna heldur bara að vera með.

Það er ekki að sjá að það hafi heldur verið nein þörf fyrir samkeppnislög í gegnum tíðina. Tíminn fyrir og eftir setningu slíkra laga er fullur af dæmum um smáfyrirtæki sem hafa tekist á við tröllaukna forrennara sína með ekkert nema hugvitið að vopni og aldrei skírskotað í samkeppnislög. Þar má nefna hvernig Vífilfell skákaði Ölgerðinni á sínum tíma, hvernig nokkrir pervisnir gleraugnaglámar tókust á við risann IBM og eru nú auðugustu menn í heimi, og jafnvel hvernig bleikur sparigrís sem fyrst var á skilti lítillar búðar við Skútuvog er nú orðinn skjaldarvættur samsteypu sem keppir á heimsvísu.

Eins og sýndi sig síðan fyrir Hæstarétti þann 15. mars 2007, þá er í ofanálag ákaflega erfitt að framfylgja samkeppnislögum. Slík lög eru í eðli sínu illa túlkanleg, tvíræð og ósamræm stjórnarskrá, mannréttindum, og sjálfum sér.


Einokun er eingöngu á færi ríkisins


Það virðast flestir vera sammála um að einokun sé ekki eftirsóknarvert ástand. Þeir sem styðja samkeppnislög af einhverju tagi eru fyrstir manna að staðfesta þá skoðun. Það er því merkilegt að sá sami hópur manna er yfirleitt fylgjandi einokunarverslun ríkisins með eitt og annað.

Ef málið er athugað til hlítar, þá komumst við að því að þau einokunarfyrirtæki sem við sjáum í dag eru, eða hafa verið, ríkisrekin eða með lögbundið einkaleyfi fyrir rekstri frá ríkinu. Slík ríkiseinokun er ill. Fyrirtæki sem hafa komið sjálfum sér af eigin rammleik í markaðsráðandi stöðu þurfa að selja viðskiptavinum sínum vöru og þjónustu sem þeir þurfa, á betri kjörum en viðskiptavinirnir geta fengið annarsstaðar, og þurfa að halda kostnaði í lágmarki til að geta haft eitthvað upp úr krafsinu. Ríkisfyrirtæki þurfa ekkert slíkt að gera. Það eru einfaldlega sett lög sem banna mönnum að færa viðskipti sín annað. Þetta er þó oft gert óbeint með því að innheimta skatt eða "afnotagjald".

Einhverjir hentu því fram um árið að það væri orðið einræði þegar sömu menn sætu í sömu stjórnarstöðum í ákveðinn fjölda ára. Það gleymist þar að stjórnum er hér steypt af stóli fjórða hvert ár. Að sama skapi misnefna menn það oft einokun þar sem eitt fyrirtæki í einhverjum geira er margfalt vinsælla en öll hin til samans. En það ber að athuga að sú staða viðkomandi fyrirtækis er borin undir viðskiptavini þess, ekki fjórða hvert ár, heldur á hverjum einasta degi.

Sú kvísl af einokun sem á sér stað þegar ríkið úthlutar ákveðinni tegund rekstrarleyfa, svokölluðum einkaleyfum eða sérleyfum, æxlast þannig að ríki eða bæjarfélag ákveður að það skuli vera svo og svo margir aðilar í ákveðnum rekstri á ákveðnu svæði. Sem dæmi má nefna fólksflutninga og veitingarekstur. Þeir sem hafa þegar haslað sér völl á markaðnum eru þannig í þeirri stöðu að geta kallað til lögreglu ef einhver vogar sér í samkeppni við þá, því þeir eru með lögbundið einkaleyfi fyrir rekstri. Slíkt býður einnig upp á spillingu, því það er ekki markaðurinn sem ákveður hver skuli standa í rekstri heldur örfáir menn sem sitja í nefnd sem gjarnan eru falir eða frændur. Einkaleyfum sem þessum hefur verið úthlutað til ótrúlegustu starfsemi, allt frá pylsuvögnum og skóbursturum til mjólkurframleiðslu og miðlægs gagnagrunns á heilbrigðissviði. Allra versta tegund slíks er sú þar sem ríkið beinlínis rekur og fjármagnar fyrirtæki. Þá er oft, en ekki alltaf, harðbannað að einstaklingar og einkafyrirtæki veiti sömu þjónustu. Þeir sem hafa áhyggjur af því að "völdin færist á hendur fárra" ættu að líta fyrst og fremst í þessa átt.

Það er því með einokun eins og annað sem mönnum er illa við að vandamálin verða ekki leyst með því að banna þau. Þvert á móti eru það bönnin sem eru rót vandans til að byrja með.


Samkeppnin sjálf er verðlaus


Það er ekki samkeppnin sjálf sem ber að vernda með öllum ráðum, heldur geta manna til að beita hugviti sínu. Sköpunarkraftur mannshugans er það sem ber mannkyn fram á veginn, og því ber okkur að tryggja hverjum manni athafnafrelsi til að beisla hugvit sitt.

Afnemum samkeppnislög hið snarasta, og gefum fólkinu í landinu frjálsan tauminn að keppast við að gera betur og betur, í staðinn fyrir að keppast bara við að keppast.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Als

Kæru félagar,

hér er verið að reifa skoðunum sem verða ekki afgreiddar einast með vísan í breiskleika og siðblindni manna. Dæmin um uppstokkun fyrirtækja í Bandaríkjunum eru mun fleiri og nægir að nefna AT&T og Bell í því sambandi. Lögin um hringamyndun þar vestra hafa verið til umræðu á meðal fræðimanna og leikmanna um langan aldur og hafa frjálshyggjumenn aðallega gagnrýnt tilvist þeirra med ýmsum góðum rökum. Í mínu námi hafði ég prófessor, Dominick T. Armentano, sem er á meðal leiðandi andmælenda þessara laga og sýndi hann fram á með dæmum og fræðilegum tökum hvernig lagasetning af þessu tagi vinnur gegn hagsmunum neytenda.

Með lagasetningu, sem er ætlað að koma í veg fyrir markaðsráðandi stöðu eins aðila á markaði, hefur verið stuðst við úrelta skilgreiningu á innviðum markaðarins að því er varðar hvernig markaðurinn geti best tryggt hag neytenda. Nú, hundrað árum síðar, sýnir reynslan að lagasetningin frá 1906, sem byggði á eldri lögum sem ætlað var svipað hlutverk, og síðari viðbætur, hefur ekki náð að tryggja hag neytenda sé hann mældur í verði á vöru. Lögin hvíla á þeim gallaða grunni, að einungis samkeppni með fjölda keppenda á markaði tryggi lægsta verð vöru og þjónustu. Fákeppni geti einungis falið í sér hærra verð og slakari þjónustu.

Vandamálið er hér af tvennum toga. Í fyrsta lagi er næsta víst að með því að koma í veg fyrir að samkeppnisaðili stækki um of (eins og Rúnar bendir á) er skussinn verðlaunaður á kostnað hins duglega. Rökin að baki lögunum eru þau að með því að halda í sem flesta samkeppnisaðila er tryggt að einn aðili ráði ekki markaðnum og misnoti sér aðstöðu sína til þess að hagnast umfram það sem eðlilegt er. Auk þess sem reynslan sýnir að þessar áhyggjur eru ekki verðskuldaðar komum við að annarri megin brotalöm laganna.

Hver er skilgreiningin á umfangi og eðli markaðar? Vegna þess hve innviðir markaðshagkerfisins eru flóknir en jafnframt gegnsæir er gengi sérhverrar atvinnugreinar stöðugt borið saman við gengi annarra. Ef eitt fyrirtæki reynir, vegna ráðandi markaðsstöðu, að tryggja sér hagnað umfram það sem kalla má efnahagslega eðlilegt, er næsta víst að fyrirtæki úr óskyldum greinum (eða öðru landi!) vilja taka þátt í veislunni. Önnur hlið á sama teningi er meira tæknileg, en afar lýsandi fyrir vanda löggjafans og þeirra sem eiga að framfylgja lögunum, en hún varðar hvernig við skilgreinum suma markaði og hvort það sé yfir höfuð mögulegt. Vandi löggjafans kristallast í lítilli dæmisögu sem segir að ef þú eignaðist öll appelsínutré heimsins myndirðu þá hafa einokun á markaði? Svarið er vitanlega nei, því þrátt fyrir að þú gætir aleinn sinnt neytendum, sem ekkert láta inn fyrir sínar varir annað en appelsínusafa, keppa framleiðendur annarra safa og nær allra annarra svaladrykkja (vatn, gosdrykki, mjólk o.m.fl.) um hylli neytenda. Að ekki sé nú talað um að sumir myndu fjárfesta í ræktun appelsínutrjáa á nýjum stöðum og með tímanum brjóta á bak aftur einokun þína á appelsínuafurðum.

Þessi hráa gagnrýni á hringamyndunarlög er háð ýmsum skilyrðum, m.a. að hið opinbera trufli ekki um of myndina á öðrum sviðum, m.a. með veitingu einkaleyfa eða sértækra ívilnana, eða að starfsemi utan laga og réttar sé ekki verulega umfangsmikil. Ekki það að gagnrýnin standist ekki, heldur hitt að slíkar sértækar aðgerðir eða aðstæður vernda handhafa slíkra bitlinga með slíkum hætti að þeim er ekki sjálfrátt þegar þeir raka inn hagnaðinn.

Ólafur Als, 17.3.2007 kl. 10:12

2 Smámynd: Rúnar Óli Bjarnason

Ég sé ekkert efnislegt í athugasemd Kristins sem kemur samkeppnislögum beint við. Mér sýnist hann vera að selja róg. Það er bullandi samkeppni í þeim bransanum, enda er ég búinn að kaupa minn róg ódýrar annars staðar, takk.

Hins má geta að John D. Rockefeller var stórmerkilegur maður. Um hann má lesa nánar í bók eftir Ron Chernow: "Titan". Það vita ekki margir t.d. að Rockefeller og fyrirtæki hans Standard Oil (Esso) björguðu búrhvölum frá bráðri útrýmingarhættu. Um það má lesa hér: http://www.gmu.edu/departments/economics/wew/articles/97/public-private.html

Rúnar Óli Bjarnason, 18.3.2007 kl. 06:01

3 Smámynd: Rúnar Óli Bjarnason

Vel minnst hjá Ólafi á vandann við að skilgreina markað. Það er gengið það langt í Bandaríkjunum til dæmis að samruni var kærður fyrir örfáum árum þar sem talið var samsteypan myndi einoka sölu á "superpremium" rjómaís. Um það má lesa hér (með hlekk þaðan í ákvörðun samkeppnisráðs þar í landi): http://www.capmag.com/article.asp?ID=2548

Nú heyrist í einhverjum að bensín og rjómaís sé ekki hægt að bera saman, að á þessu tvennu sé eðlismunur. Það er alls ekki rétt. Vinstri Grænir hafa til dæmis verið duglegir við að hvetja fólk að skilja bensínbílinn eftir heima og nota í staðinn reiðhjól (þó þeir sjáist ekki oft sjálfir hjólandi), en reiðhjól er einmitt farartæki sem gengur fyrir rjómaís.

Rúnar Óli Bjarnason, 18.3.2007 kl. 06:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband