Færsluflokkur: Dægurmál

Hefði betur þagað

Kristinn Björnsson hefði betur þagað en að tjá sig um málið með þessum hætti, enda engin leið að skilja um hvað hann er að tala. Ef til vill veit hann það ekki heldur.

Til þeirra sem í framtíðinni standa frammi fyrir því að vera ákærðir af hentisemi samkeppnisyfirvalda (eða "jafnréttis"-yfirvalda ef út í það er farið) mæli ég með að segja eftirfarandi, og ekkert annað:

Ég mun ekki hjálpa ykkur að þykjast vera að rannsaka hér glæp. Ég hef engan glæp framið. Ég hef engu valdi beitt gegn neinum. Ég rek mitt fyrirtæki samkvæmt eigin sannfæringu, og þeir sem ekki líkar það geta í sannfæringu sinni verslað annars staðar. Gerið það sem þið viljið. Þið fáið enga aðstoð frá mér. Ég er hér með í verkfalli gegn þessu mannætukerfi ykkar. Veriði úti.



mbl.is Smjörklípa í Kastljósi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samkeppnislög: Bann við viðskiptum

Uppruni samkeppnislaga

Samkvæmt spámönnum félagshyggjunnar kemur frjáls og óheftur markaður óumflýjanlega til með að enda í stofnun eins risafyrirtækis sem síðan örfá fúlmenni nota til að stjórna öllum þáttum samfélagsins með gráðugri járnklónni meðan almenningur sveltur í hel. Þetta er vissulega ófögur tilhugsun, en á frjálsum markaði engu líklegri til að verða að veruleika en kaffisýnir spákerlinga í Vesturbænum eða heimsendaskyggni sjáenda.

En þó, til að berjast við þessa grýlu hafa leppalúðar og donkíkótar stjórnmálanna séð það sem nauðsyn í gegnum tíðina að setja lög og reglur, svokölluð samkeppnislög, sem eiga að koma í veg fyrir innrás umræddra vindmyllna. Þau lög eiga samkvæmt kenningunni að stuðla að samkeppni og vernda hana.


Blákaldur raunveruleikinn

Sú er hin meinta tilætlun, en eins og með allt sem byggt er á tómri ímyndun verður reynslan önnur. Samkeppnislög eru gífurlegt óréttlæti. Eins og við munum sjá eru samkeppnislög oft skjöldur gegn samkeppni handa ósamkeppnishæfum fyrirtækjum, sem kemur sér best fyrir þau sem mönnuð eru letingjum og fúlmennum.

Hvað þýðir það raunverulega þegar menn segjast vilja vernda samkeppni sem slíka? Það þýðir að keppa keppninnar vegna, ekki að keppa til að vinna. Þeir sem viðskiptavinirnir verðlauna hvað mest eru höggnir niður, og þeim sem eru að tapa í keppninni er hjálpað á fætur á kostnað hinna. Þú mátt geta þrisvar hver á endanum greiðir þann kostnað í formi hærra verðlags. Hið raunverulega verksvið samkeppnislaga er því að refsa fyrirtækjum og viðskiptavinum þeirra fyrir að vegna vel, og hygla þeim sem illa gengur. Að gera betur en aðrir við viðskiptavini sína er orðið refsivert athæfi og þeir sem ekkert nýtt eða betra hafa að bjóða þurfa engar áhyggjur að hafa. Þeim verður reddað fyrir horn af ríkinu hvort eð er, í nafni þess að halda uppi samkeppni.

Hérna liggur hjarta jafnaðarstefnunnar. Jafnaðarmenn láta ekki staðar numið við að aðstoða bágstadda á kostnað hinna efnameiri. Í sál jafnaðarmannsins liggur óbeit á því að sumir séu öðruvísi en aðrir og gangi því betur, hvort sem það er í viðskiptum, íþróttum, námi eða öðru. Slík einstaklingsbundin velmegun stangast á við "félagslegt réttlæti", sem við dauðlegir menn í daglegu tali köllum öfund.

Á hinni hlið þess sama tenings hinnar meintu samkeppnisskyldu er bann við samráði og samruna. Það er að sama skapi ætlað til að halda uppi samkeppni samkeppninnar vegna. En það hlýtur að vera deginum ljósara að þannig samkeppni er bara plat, og lög sem þessi tortíma samkeppni frekar en að halda henni við. Það að við þykjumst að það séu forsendur fyrir samkeppni, og þykjumst að hún eigi sér stað, þýðir alls ekki að svo sé.


Reynslan hingað til

Nú er komin þónokkur reynsla af bæði tímum þegar samkeppnislög eru við lýði og þegar þau eru það ekki. Það ætti því að vera talsvert ljóst hvort þau hafi haft tilætluð áhrif og hvort, í baksýn, hafi verið nokkur þörf fyrir þau á annað borð.

Þar sem við sjáum heilbrigða samkeppni hafa samkeppnislög yfirleitt ekki komið við sögu. Þvert á móti hafa lögin oft öfug áhrif og styrkja stöðu þeirra sem minnst nenna því að leggja á sig nýbreytni. Það er einnig letjandi að mega búast við refsingum ef manni gengur of vel. Þar sem lögin hafa verið hvað mest misnotuð, t.d. í sölu trygginga og eldsneytis sjáum við lítið um samkeppni. Og þeim mun minni samkeppni sem við sjáum fáum við fleiri reglugerðir. Róðurinn verður þá þeim mun þyngri í reglugerðafrumskóginum og við sjáum enn minni samkeppni en áður. Því má í þeim geirum viðskipta þar sem lögin eru hvað mest misnotuð oftast nær finna fyrirtæki sem minna á steinsofandi bergrisa. Sofandi vegna þess að, þökk sé samkeppnislögum, eru þeir blessunarlega verndaðir gegn samkeppni. Ástandið minnir þá einna helst á unglingavinnuna, þar sem aðalatriðið er ekki að vinna heldur bara að vera með.

Það er ekki að sjá að það hafi heldur verið nein þörf fyrir samkeppnislög í gegnum tíðina. Tíminn fyrir og eftir setningu slíkra laga er fullur af dæmum um smáfyrirtæki sem hafa tekist á við tröllaukna forrennara sína með ekkert nema hugvitið að vopni og aldrei skírskotað í samkeppnislög. Þar má nefna hvernig Vífilfell skákaði Ölgerðinni á sínum tíma, hvernig nokkrir pervisnir gleraugnaglámar tókust á við risann IBM og eru nú auðugustu menn í heimi, og jafnvel hvernig bleikur sparigrís sem fyrst var á skilti lítillar búðar við Skútuvog er nú orðinn skjaldarvættur samsteypu sem keppir á heimsvísu.

Eins og sýndi sig síðan fyrir Hæstarétti þann 15. mars 2007, þá er í ofanálag ákaflega erfitt að framfylgja samkeppnislögum. Slík lög eru í eðli sínu illa túlkanleg, tvíræð og ósamræm stjórnarskrá, mannréttindum, og sjálfum sér.


Einokun er eingöngu á færi ríkisins


Það virðast flestir vera sammála um að einokun sé ekki eftirsóknarvert ástand. Þeir sem styðja samkeppnislög af einhverju tagi eru fyrstir manna að staðfesta þá skoðun. Það er því merkilegt að sá sami hópur manna er yfirleitt fylgjandi einokunarverslun ríkisins með eitt og annað.

Ef málið er athugað til hlítar, þá komumst við að því að þau einokunarfyrirtæki sem við sjáum í dag eru, eða hafa verið, ríkisrekin eða með lögbundið einkaleyfi fyrir rekstri frá ríkinu. Slík ríkiseinokun er ill. Fyrirtæki sem hafa komið sjálfum sér af eigin rammleik í markaðsráðandi stöðu þurfa að selja viðskiptavinum sínum vöru og þjónustu sem þeir þurfa, á betri kjörum en viðskiptavinirnir geta fengið annarsstaðar, og þurfa að halda kostnaði í lágmarki til að geta haft eitthvað upp úr krafsinu. Ríkisfyrirtæki þurfa ekkert slíkt að gera. Það eru einfaldlega sett lög sem banna mönnum að færa viðskipti sín annað. Þetta er þó oft gert óbeint með því að innheimta skatt eða "afnotagjald".

Einhverjir hentu því fram um árið að það væri orðið einræði þegar sömu menn sætu í sömu stjórnarstöðum í ákveðinn fjölda ára. Það gleymist þar að stjórnum er hér steypt af stóli fjórða hvert ár. Að sama skapi misnefna menn það oft einokun þar sem eitt fyrirtæki í einhverjum geira er margfalt vinsælla en öll hin til samans. En það ber að athuga að sú staða viðkomandi fyrirtækis er borin undir viðskiptavini þess, ekki fjórða hvert ár, heldur á hverjum einasta degi.

Sú kvísl af einokun sem á sér stað þegar ríkið úthlutar ákveðinni tegund rekstrarleyfa, svokölluðum einkaleyfum eða sérleyfum, æxlast þannig að ríki eða bæjarfélag ákveður að það skuli vera svo og svo margir aðilar í ákveðnum rekstri á ákveðnu svæði. Sem dæmi má nefna fólksflutninga og veitingarekstur. Þeir sem hafa þegar haslað sér völl á markaðnum eru þannig í þeirri stöðu að geta kallað til lögreglu ef einhver vogar sér í samkeppni við þá, því þeir eru með lögbundið einkaleyfi fyrir rekstri. Slíkt býður einnig upp á spillingu, því það er ekki markaðurinn sem ákveður hver skuli standa í rekstri heldur örfáir menn sem sitja í nefnd sem gjarnan eru falir eða frændur. Einkaleyfum sem þessum hefur verið úthlutað til ótrúlegustu starfsemi, allt frá pylsuvögnum og skóbursturum til mjólkurframleiðslu og miðlægs gagnagrunns á heilbrigðissviði. Allra versta tegund slíks er sú þar sem ríkið beinlínis rekur og fjármagnar fyrirtæki. Þá er oft, en ekki alltaf, harðbannað að einstaklingar og einkafyrirtæki veiti sömu þjónustu. Þeir sem hafa áhyggjur af því að "völdin færist á hendur fárra" ættu að líta fyrst og fremst í þessa átt.

Það er því með einokun eins og annað sem mönnum er illa við að vandamálin verða ekki leyst með því að banna þau. Þvert á móti eru það bönnin sem eru rót vandans til að byrja með.


Samkeppnin sjálf er verðlaus


Það er ekki samkeppnin sjálf sem ber að vernda með öllum ráðum, heldur geta manna til að beita hugviti sínu. Sköpunarkraftur mannshugans er það sem ber mannkyn fram á veginn, og því ber okkur að tryggja hverjum manni athafnafrelsi til að beisla hugvit sitt.

Afnemum samkeppnislög hið snarasta, og gefum fólkinu í landinu frjálsan tauminn að keppast við að gera betur og betur, í staðinn fyrir að keppast bara við að keppast.


Hvað kosta 42 lögreglumenn, tollverðir og hundar?

Það munar ekki um það. Það þurfti 36 lögreglumenn, fjóra tollverði og tvo hunda til að leggja hendur á hvorki meira né minna en 135 grömm af hassi (sem samsvarar u.þ.b. einu sápustykki), 65 grömm af hvítu efni (þ.e.a.s. hálfan bolla eða svo) og heilar tíu e-pillur. Og þetta er "árangur umfram væntingar".

Það þarf ekki að efast um að svona aðgerðir þarfnist umtalsverðs undirbúnings, kosti einhverjar krónur, og séu jafnvel stórhættulegar þeim sem taka þátt í aðgerðunum. Er þetta ómaksins virði? Og svo er því lofað að þetta eigi eftir að endurtaka sig, þá eflaust með svipuðum tilkostnaði og áhættu.

Við skulum leyfa okkur að efast um að engin mikilvægari verkefni bíði lögreglu en að gera upptæk efni sem engan skaða nema þá sem þeirra neyta, og eru þeir neytendur þá jafnan hyski sem mætti helst skaða sig meira. Vissulega tengist þetta pakk oft annars konar glæpum, en er ekki brýnna fyrir lögregluna að taka á þeim glæpum?

Það sýndi sig vel á áfengisbannárunum í Bandaríkjunum að það er tiltölulega auðvelt að búa til heilan glæpaiðnað í kringum einhverja vöru. Það þarf ekkert annað en að gera vöruna ólöglega. Það sýnir sig líka vel hversu vel sú aðferð sem nú er tekin virkar, þegar menn eru að fagna því í hástert að takist hafi að leggja hendur á magn einhverra efna sem samsvarar hráefnum í hálfa lummuuppskrift.

Betur má ef duga skal. Það liggur innan valds alþingis að gera útaf við fíkniefnavandann með pennanum einum saman. Það mætti koma málum þannig um kring að ekki væri hægt að hafa meira upp úr fíkniefnasölu á Íslandi en t.d. innflutningi osta eða rúgmjöls.


mbl.is "Þetta kvöld á eftir að endurtaka sig"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband