Hvað kosta 42 lögreglumenn, tollverðir og hundar?

Það munar ekki um það. Það þurfti 36 lögreglumenn, fjóra tollverði og tvo hunda til að leggja hendur á hvorki meira né minna en 135 grömm af hassi (sem samsvarar u.þ.b. einu sápustykki), 65 grömm af hvítu efni (þ.e.a.s. hálfan bolla eða svo) og heilar tíu e-pillur. Og þetta er "árangur umfram væntingar".

Það þarf ekki að efast um að svona aðgerðir þarfnist umtalsverðs undirbúnings, kosti einhverjar krónur, og séu jafnvel stórhættulegar þeim sem taka þátt í aðgerðunum. Er þetta ómaksins virði? Og svo er því lofað að þetta eigi eftir að endurtaka sig, þá eflaust með svipuðum tilkostnaði og áhættu.

Við skulum leyfa okkur að efast um að engin mikilvægari verkefni bíði lögreglu en að gera upptæk efni sem engan skaða nema þá sem þeirra neyta, og eru þeir neytendur þá jafnan hyski sem mætti helst skaða sig meira. Vissulega tengist þetta pakk oft annars konar glæpum, en er ekki brýnna fyrir lögregluna að taka á þeim glæpum?

Það sýndi sig vel á áfengisbannárunum í Bandaríkjunum að það er tiltölulega auðvelt að búa til heilan glæpaiðnað í kringum einhverja vöru. Það þarf ekkert annað en að gera vöruna ólöglega. Það sýnir sig líka vel hversu vel sú aðferð sem nú er tekin virkar, þegar menn eru að fagna því í hástert að takist hafi að leggja hendur á magn einhverra efna sem samsvarar hráefnum í hálfa lummuuppskrift.

Betur má ef duga skal. Það liggur innan valds alþingis að gera útaf við fíkniefnavandann með pennanum einum saman. Það mætti koma málum þannig um kring að ekki væri hægt að hafa meira upp úr fíkniefnasölu á Íslandi en t.d. innflutningi osta eða rúgmjöls.


mbl.is "Þetta kvöld á eftir að endurtaka sig"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján

Ábyggilega kosta svona aðgerðir þó nokkurn pening og væntingarnar ekki settar mjög hátt fyrst "árangur umfram væntingar"

En átti ekki Ísland að vera fíkniefnalaust árið 2000 skv. einhverri bjartsýnisáætlun sem sett var fram fyrir margt löngu siðan  Nokkur ár hafa liðið fram yfir þann tíma og vandinn enn til staðar.

Kristján, 14.3.2007 kl. 11:38

2 identicon

Ég er nú reyndar ósammála því að vímuefni skaði ekki aðra en neytendurna sjálfa. Óhófsneysla bitnar yfirleitt á aðstandendum, einkum börnum.  Við þurfum ekkert að tíunda það ofbeldi og aðra glæpi sem fylgja fíkniefnavanda og flestum hlýtur nú að þykja æskilegra að koma í veg fyrir glæpi en að takast á við afleiðingar þeirra. Auk þess bitnar vímuefnafíkn á þeim sem halda uppi  velferðarkerfinu og heilbrigðiskerfinu.

Hvort þessi vinnubrögð eru líkleg til að draga úr vímuefnavanda er svo allt annað mál. Ég held reyndar ekki. 

Sápuópera (IP-tala skráð) 16.3.2007 kl. 21:17

3 Smámynd: Rúnar Óli Bjarnason

Óhófsneysla áfengis hefur ekki síðri áhrif á aðstandendur né á heilbrigðiskerfið, og "áfengisvanda" fylgdu hinir verstu glæpir á bannárunum. En það er ekki meginatriðið. Meginspurningarnar eru tvær:

1. Erum við frjáls eða ekki?

2. Er það skylda okkar að hafa fíkniefnaneytendur í pössun?

Ef svarið við nr. 1 er já, þá er svarið við nr. 2 nei. Þetta pakk getur passað upp á sig sjálft.

Rúnar Óli Bjarnason, 17.3.2007 kl. 00:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband